Veiðisaga frá svæði 7

Allt sem viðkemur hreindýrum
Haglari
Póstar í umræðu: 1
Póstar:125
Skráður:03 Oct 2013 20:27
Fullt nafn:Óskar Andri Víðisson
Hafa samband:
Veiðisaga frá svæði 7

Ólesinn póstur af Haglari » 22 Jul 2015 17:27

Hérna kemur löööng veiðisaga fyrir þá sem hafa gagn og gaman af svoleiðis. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa er hægt að fara beinustu leið í myndirnar :)

Ég og Andri Freyr mágur minn sóttum um sitthvorn tarfinn á sv. 7. Við vorum báðir á biðlista og eftir einhverjar endurúthlutanir vorum við báðir komnir með dýr. Dagsetning var nelgd niður, lína send á Sigga veiðimeistara og hann fengin til að vera leiðsögumaður. Mánuðir, vikur og dagar liðu þar til við loksins rendum í hlað að sækja Sigga að morgni 17. júlí. Með í leiðangrinum voru Óskari Andri (undirritaður) og Andri Freyr veiðimenn, Sigurður Aðalsteinsson veiðimeistari og leiðsögumaður, Kristín Alísa systir mín og kærasta Andra, Eirikur fósturpabbi minn, Þorsteinn faðir Andra og síðar bættist við Finnbogi mágur Andra hinumegin frá (kærasti systur Andra). Á leiðinni frá Egilstöðum hringir Siggi nokkur símtöl til að fá fregnir hvar væri líklegast að finna hjarðir á svæði 7. Það virtist ekki vera mikið að frétta. Vitað var af hjörð í Búlandsdal og eitthvað af stöðum höfðu ekki verið kannaðir. Við vorum á tveimur vel útbúnum jeppum og var ákveðið að nota þá til að kanna svæðið frá Merkjahrygg inn í Leirdal. Þar var nokkur bleyta og snjór þannig að jepparnir fengu að vinna fyrir sínu. Þrátt fyrir að vera vongóðir var lítið um að vera. Nokkrar beljur með kálfa sáust á hlaupum eftir að flugvél sem var að telja svæði 6 flaug rétt hjá okkur þar sem svæði 6 og 7 mættust. Það var því ákveðið að snúa til baka og halda inn í Búlandsdal. Þegar þangað var komið um eitt leytið var hjörðin enn til staðar og búið að fella einn tarf rúmlega hálfa leið inni í dalnum. Vitað var nokkurnvegin að hjörðin hefði síðan farið út dalin og upp í skál sem var sýnileg frá bílastæðinu. Þessi skál er á milli Nóntinds og Sauðdalstinds. Eftir stutta stund sáust þrír tarfar frá bílastæðinu liggja í rólegheitum uppi í fjallinu. Þetta leit út fyrir að vera nokkur hægur leikur og við drifum okkur af stað. Það var fróðlegt að fylgjast með Sigga veiðimeistara velja leið að dýrunum, vindurinn var óhægstæður og ekki endilega hægt að velja auðveldustu leiðina upp fjallið. Siggi liðaðist um fjöllin eins og hann væri sjálfur hreindýr og við hin, veiðimenn og leiðangursmenn reyndum hvað við gátum að halda í við hann. Á leiðinni upp urðu á vegi okkar tvær kýr. Þetta tafði aðeins fyrir okkur því að til að komast upp fyrir þær þurftum við að hætta á að þær myndu taka vind frá okkur og styggjast. Þegar þær voru komnar í hvarf héldum við áfram lóðbeint upp fjallið. Nokkrir þokubakkar byrja að liðast um fjallstindana og þegar við erum að nálgast skálina þar sem talið var að hjörðin leyndist birtist skyndilega stór tarfur með gríðarleg horn út úr þokunni 400m fyrir ofan okkur. Þessi dularfulli tarfur hvarf jafn skyndilega inn í skálina eins og hann birtist úr þokunni. Stutt á eftir honum komu fleiri myndarlegir tarfar og hurfu sömu leið. Það þurfti enginn að segja neitt, þetta var það sem við vorum komnir til að ná í. Þegar við loksins komum upp í skálina voru litlir þokubakkar að ganga yfir. Vindarnir voru ennþá óhagsæðir og einhver óróleiki í hjörðinni. Hægt og rólega færðist hjörðin út úr skálinni og inn Búlandsdalinn. Við fylgdum á eftir en þurftum stöðugt að stoppa, meta staðsetningu og vindáttir. Hjörðin hélt áfram hægt og rólega inn dalinn. Á einni stundu stoppaði hjörðin á þokkalegum stað. Við komumst á hrygg sem var á bilinu 200-250m frá dýrunum. Um það leyti sem við erum að skríða í skotstöðu hefur hjörðin sennilega náð vind á okkur og færði sig af stað aftur. Þegar við erum komin talsvert inn dalinn er hjörðin búin að lækka sig niður í Hrossamýrar. Vindurinn var ennþá að gera okkur óleik en með því að skríða dágóðan spöl og þvera gil fyrir ofan hjörðina vorum að komast í frábæra stöðu. Nú voru dýrin í ekki nema 120-150m færi. Við Andri leggjumst sitthvoru megin við Sigga veiðimeistara og var búið að ákveða að Siggi mynda telja niður og við myndum skjóta á sama tíma. Okkur gafst tími til að skoða hjörðina vel og velja okkur dýr. Skotin voru komin í hlaupið og allt var tilbúið. Nú var að bíða eftir að við hefðum báðir gott skot en allt kom fyrir ekki. Tarfarnir sem við höfðum valið skiptust á að snúa sér eða önnur dýr þvældust fyrir. Það var mikil hreyfing á dýrunum, sami óróleiki og hafði verið áður og fyrr en varði fór hjörðin af stað aftur. Nú fór hjörðin lóðbeint upp fjallið og hvarf á bakvið eitthvað gil í rétt undir klettabeltinu. Við fylgdum á eftir en þegar við komum að gilinu sjáum við dýrin hvergi, dýrin virtust hafa horfið. Það kom ekkert annað til greyna en að halda áfram upp fjallið, það gat ekki verið að heil hjörð gæti horfið svona. Þegar við erum að vinna okkur upp fjallið leynist lítil skál ofarlega í klettabeltinu. Þar var hjörðin í rólegheitum sennilega í kringum 850-900m hæð yfir sjávarmáli. Þarna vorum við búnir að króa hjörðina af en til að komast í skotstöðu þurftum við að skríða yfir urð og grjót, leggjast á klöpp þar sem við höfðum góða yfirsýn yfir hjörðina. Hjörðin var að mestu í kringum 150m frá okkur. Nú voru dýrin loksins róleg. Andri leggst hægra megin við Sigga og finnur fljótlega stóra vel hyrnta tarfinn sem við sáum koma út úr þokunni einhverjum klukkutímum áður. Mér tekst að finna flottan tarf sem reyndar hverfur síðan á bakvið klöpp og færið orðið vafasamt. Ég vel því annan myndarlegan tarf aðeins ofar í skálinni. Nú er þetta að fara að gerast. Skotin er komin í hlaupið og hjörðin er róleg. Ekki leið að löngu þar til við erum báðir komnir með gott skot, ég legg krossin að aftanverðri frammlöpp og aðeins upp á bóginn. Siggi telur niður 1,2 og 3"BAMM" skotin ríða af með einungis örfáum sekundubrotum á milli. Bæði skotin hitta vel. Dýrið mitt hóstar blóði samstundis og leggst fljótlega niður. Tarfurinn hans Andra var tregur til og tók sér rólegan göngutúr á meðan hin dýrin ruku á undan. Eftir smá stund leggst hann niður og fær annað skot á bakvið eyrað sem slökkti samstundis öll ljós. Þreyttir en alsælir fórum við að virða dýrin fyrir okkur og gefa hinum leiðangursmönnunum merki hvar við værum en þeir höfðu dregist talsvert afturúr í eltingarleiknum. Eftir nestispásu voru teknar nokkrar myndir, tekið innan úr dýrunum og hausarnir teknir af til að varðveita hornin. Þá tók við sú mikla þrautaganga að koma dýrunum niður í bílana aftur. Við vorum komin langt inn í dalinn og hátt uppi í klettabelti. Þarna má hvorki fara á bíl né hjólum og því ekki um annað að ræða en að bera dýrin niður. Okkur var það fljótlega ljóst að í besta falli kæmum við öðru dýrinu niður á meðan við þyrftum sækja hitta síðar. Það var ákveðið að koma báðum dýrunum allavega niður úr klettabeltinu og grafa annan tarfinn í snjó fyrir neðan klettabeltið. Það gekk ágætlega að koma dýrunum niður úr klettabeltinu. Snjórinn hjálpaði helling til, auðveldaði að draga dýrin og niður gilin var nóg að halda við dýrin. Það voru þó nokkur tilþrif á leiðinni niður þar sem sumir tóku flugferð (til á video) með dýrið niður snjóskaflana enda ekkert grín að halda við 100 kg í snarbröttum snjóskafl. Þegar búið var að grafa annað dýrið í snjó tók við að halda áfram með hitt dýrið niður. Nú tókum við fram öflugt segl sem var meðferðist. Segl dugar ágætlega í sléttu graslendi en í svona fjalllendi, urð og grjóti er það leiðinlegt viðureignar. Hluti af hópnum gekk niður í bílana með byssurnar og hausana á meðan við veiðimennirnir tveir ásamt Þorsteini pabba hans Andra drógum dýrið. Hver klukkutíminn á fætur öðrum hvarf út í buskan, þvílík kleppsvinna sem virtist aldrei ætla að taka enda. Stuttu eftir að við komum loksins auga á bílana hálf eitt um nóttina rifnaði seglið í tætlur! Eins svekkjandi og það var held ég að innst inni að við höfum við fegnir því nú var ekki um annað að velja en að grafa þetta dýr líka í snjó og sækja það daginn eftir. Lán í óláni var að þetta gerðist skammt frá neðsta snjóskaflinum í dalnum. Um þetta leiti var systir mín að koma til baka frá bílunum með nesti handa okkur, það var mikil gleði þar sem það litla nesti sem við vorum með var löngu búið. Við þurftum að bera dýrið smá vegalengd í snjóinn, það leysti ég með því að setja band í hverja löpp á dýrinu sem var síðan hægt að taka yfir öxlina. Útkeyrðir komumst við loksins í bílana og héldum af stað til Egilsstaða. Eftir að hafa farið með hornin/hausana til Reimars hamskera og skuttlað Sigga veiðimeistara heim gátum við loksins lagst til hvíldar kl 4 um morguninn, allir útkeyrðir eftir daginn. Morgunin eftir voru menn mis frammlágir. Ljóst var að okkur vantaði eitthvað betra en seglið sem gaf sig nóttuni áður til að koma dýrinu niður, okkur vantaði PVC hreindýra mottu. Þar kom Siggi okkur aftur til bjargar. Eftir að hafa leitað á nokkrum stöðum hafði Siggi samband við mig og var búinn að finna hreindýramottur hjá Reimari sem hann var tilbúinn til að lána okkur. Við renndum til Reimars og fengum hjá honum góðar leiðbeiningar um hvernig átti að bera sig að við að nota þessar mottur og erum við ævinlega þakkláttir fyrir liðlegheitin. Áður en farið var af stað var komið við í N1 Skálanum. Sveittur hamborgari og franskar höfðu sótt að sumum í draumi eftir átökin nóttina á undan og var harðneitað að fara af stað fyrr en þau mál höfðu verið afgreidd! Inn í Búlandsdal runnum við aftur, útblásnir eftir hamborgarana og með nýju motturnar langaði okkur helst að valhoppa af stað að ná í dýrið sem við skildum eftir nóttina áður. Nú gekk allt miklu betur. Það voru 2-3 að draga, einn að fylgja dýrinu eftir og einn var 30-50m á undan til að vera gönguviti yfir helstu hindranirnar. Dýrinu skellt inn í pall á öðrum bílnum og um það leyti sem við vorum að klára nesti barst okkur auka aðstoð að sunnan. Finnbogi mágur hans Andra hinumegin frá gat ekki setið á sér að koma og aðstoða okkur þegar hann frétti af raunum okkar nóttina áður. Inga konan mín sótti hann á flugvöllin á Egilsstöðum og skutlaði til okkar í Búlandsdal. Seinna dýrið var ennþá lengst inni í dalnum undir klettabelti. Þar sem þetta var skrokkur sem við ætluðum að nota fyrir okkur sjálf ákváðum við að úrbeina það á staðnum og bera niður í bakpokum. Þá hófst enn ein þrautagangan inn dalin og upp í klettabelti. Það var komið framm á kvöld og kaldur blástur blés út dalinn.
Úrbeiningin gekk vel, tók um klukkutíma og 20 mínútur. Þetta reyndist vera margfallt auðveldari og betri leið til að koma dýrinu niður. Hver og einn gat gengið á sínum hraða og hægt að skiptast á með þyngstu pokana. Ólíkt kleppsvinunni nóttina áður gengu leiðangursmenn nú niður með bros á vör. Siggi veiðimeistari var svo góður að vaka eftir okkur og fylgdi okkur með dýrin í kælingu og fláningu til Jón Egils. Það var síðan aftur um kl. 4 um morgun sem við skriðum loksins í svefn. Hérna er held ég rétt af fara að setja punkt á þessa veiðisögu enda er þetta orðið ágætt. Siggi veiðimeistari og veiðifélagarnir fá bestu þakkir fyrir alla hjálpina.

Verkfærin sem voru notuð voru
Sako 75 Stainless hunter cal. 6,5x55 með Lapua Scenar L 136 og Norma MRP púðri
Blaser R8 Professional Scandinavian cal. 6XC með Lapua Scenar 105 og VhitaVuori N160 púðri

Mynd
Á leiðinni um Merkjahrygg

Mynd
Nokkur snjór var á leiðinni

Mynd
Veiðimeistarinn komin yfir göngubrúnna í Búlandsdal. Akkurat fyrir ofan hann sést skýjahnoðri koma út úr skálinni þar sem dýrin voru

Mynd
Á leiðinni upp, veiðimeistarinn fylgist með beljum sem töfðu aðeins för okkar upp fjallið

Mynd
Þokan sem draumatarfurinn læddist út úr, við eltum stundum svona læki/gil til að minka líkurnar á að dýrin fynndu liktina af okkur

Mynd
Komin upp í skálina og dýrin hverfa út úr skálinni og inn í þoku

Mynd
Eltingaleikurinn hafinn yfir snjó, gil, urð, grjót og mýrar. Þoka læðist um dalinn og einungis topparnir kíkja í gegnum þokuna.

Mynd
För eftir hjörðina í snjónum

Mynd
Ég skildi stærri vélina mína eftir hjá systur minni þegar eltingaleikurinn var orðin meira strembin, þá tók hún þessa mynd af fóstur pabba mínum.

Mynd
Rétt byrjaðir að skríða í færi þegar hjörðin tók af stað aftur

Mynd
Veiðimeistarinn fylgist grannt með hjörðinni

Mynd
Þarna munaði litlu. Myndin tekin stuttu eftir að við mistum af seinna færin og Andri búinn að taka skotið úr hlaupinu aftur. Það vantaði ekki að veðrið var fallegt.

Mynd
Búnir að finna hjörðina neðst í þessu klettabelti sem sést á myndinni (að vísu sést hjörðin ekki) við þurftum að skríða smá spöl í svona grjóti til að komast í færi.

Mynd
Undirritaður við nýfelldan tarf.

Mynd
Andri Freyr með hornprúða tarfinn sinn. Fallþungi var 90kg og hausinn viktaði 16kg

Mynd
Veiðimenn og leiðangursmenn

Mynd
Veiðimenn ásamt leiðsögumanni

Mynd
Undirritaður ánægður með sinn tarf :)

Mynd
Sigurður byrjaður að gera að dýrinu, þarna var sko vanur maður á ferð

Mynd
Hérna sést hvernig Lapua Scenar fór með lungað í dýrinu sem ég skaut

Mynd
Hausinn skorinn af tarfinum mínum

Mynd
Það var auðvelt og þæginlegt að draga dýrin á snjónum

Mynd
Skotið sem fór í banakringluna á tarfinum hans Andra

Mynd
Hausarnir á báðum dýrunum. Eins og sést eru hornin á tarfinum hans Andra talsvert stór og vegleg

Mynd
Lagt af stað niður. Alísa með horn á herðum sér.

Mynd
Niður bröttustu gilin þurfti að halda við skrokkana, annars fóru þeir á flegi ferð!

Mynd
Svona gekk þetta hægt og rólega niður úr klettabeltinu

Mynd
Hérna er síðan verið að grafa annan tarfinn í snjó þar sem hann var skilin eftir og sóttur næstu nótt

Mynd
Seint, seint um nóttina. Uppgefnir leiðangursmenn grafa seinni tarfinn í snjóskafli eftir að seglið rifnaði í tætlur

Mynd
Daginn eftir með hreindýramottu frá Reimari. Þarna gengu hlutirnir talsvert betur!

Mynd
og svo seinn um kvöldið. Komin að dýrinu sem var grafið lengst inni í dalnum. Byrjaðir að flá og úrbeina.

Mynd
Andri að úrbeina. Það vildi svo til að hann er að læra kjötiðn og er því nokkuð vanur. Þetta heppnaðist vel og gekk mun betur að koma þessu dýri niður.
Síðast breytt af Haglari þann 22 Jul 2015 18:29, breytt í 1 skipti samtals.

User avatar
gkristjansson
Skytta
Póstar í umræðu: 1
Póstar:250
Skráður:02 May 2012 14:21
Staðsetning:Ungverjaland

Re: Veiðisaga frá svæði 7

Ólesinn póstur af gkristjansson » 22 Jul 2015 18:26

Flott frásögn og góðar myndir, takk fyrir að deila þessu!
Kveðja,

Guðfinnur Kristjánsson

User avatar
gylfisig
Póstar í umræðu: 1
Póstar:598
Skráður:22 Feb 2012 13:03

Re: Veiðisaga frá svæði 7

Ólesinn póstur af gylfisig » 22 Jul 2015 18:36

Ég hef tvisvar sinnum farið í Búlandsdalinn. Í fyrra skiptið gekk allt ad óskum. Dýrin voru uppi í skál, sem sást frá bílastæðinu, og ekki nema 2ja stunda rölt, og dýrin fallin. Í seinna skiptið gekk ekki jafn vel. Hjörðin fór dalinn á enda, og ad sama stað, og þið endið á, sýnist mér. Langur og erfiður gangur á eftir þeim, svo ég tali nu ekki um ferðina til baka. Hún var erfið og löng, en við kláruðum þetta um nóttina. Það er ekki gott ad missa hjörð frá sér þarna í Búlandsdalnum, því dýrin virðast alltaf fara þarna upp eftir.
Takk fyrir skemmtilega frásögn.
Kv.
Gylfi Sigurðsson
Húsavík

User avatar
grimurl
Póstar í umræðu: 1
Póstar:70
Skráður:05 Oct 2014 18:12
Fullt nafn:Grímur Lúðvíksson

Re: Veiðisaga frá svæði 7

Ólesinn póstur af grimurl » 22 Jul 2015 21:02

Svakalega skemmtileg frásögn! Takk fyrir þetta.
Myndirnar segja líka mikið.
Takk fyrir þetta.
Með góðri kveðju,

Grímur Lúðvíksson
Selfossi

Beretta A303,Browning A5,
Marlin 22mag,Browning X-Bolt 243,Sauer 101 XT 6.5x55
Vortex Viper PST 6-24x50, Zeiss 5HD 5-25x50,Weaver 4-16x44,tasco 3-9x32

User avatar
Veiðimeistarinn
Póstar í umræðu: 1
Póstar:1917
Skráður:17 Jul 2010 09:47
Fullt nafn:Sigurður Aðalsteinsson
Staðsetning:Vaðbrekka Hrafnkelsdal

Re: Veiðisaga frá svæði 7

Ólesinn póstur af Veiðimeistarinn » 23 Jul 2015 11:17

Flott frásögn, ítarleg og frábærar myndir :)
Enda kannski ekki von á öðru, með þessum söguhetjum og myndefni :lol:
Takk fyrir að deila þessu og takk fyrir mig :D
Með beztu kveðju!
Sigurður Aðalsteinsson
sa1070(hjá)simnet.is

Svara