Gæsapiparsteik

Uppskriftir, aðferðir við verkun og allt það sem sem gert er eftir skotið...
siggi.otto
Póstar í umræðu: 1
Póstar: 9
Skráður: 20 Jul 2010 14:51

Gæsapiparsteik

Ólesinn póstur af siggi.otto » 30 Nov 2010 12:08

Miðast við mat fyrir 2

Einfalt og gott

1 gæsabringa, 2 helmingar
2 msk grófmalaður, svartur pipar, helst nýmalaður
3 einiber, steytt og mulin, má sleppa.
1/2 tsk salt

Gæsabringurnar skal láta meyrna vel fyrir eldun. Gott er að taka þær úr frosti 2 dögum fyrir eldun og láta þiðna í ísskáp. Bringur af gömlum fugli þurfa jafnvel að meyrna lengur.

3-4 klst fyrir eldun skal blanda saman piparnum og einiberjunum. Bringuhlutunum er velt upp úr blöndunni og gott er að nudda þeim aðeins saman til að dreifa piparnum jafnt á hvorn hluta. Stráið salti yfir bringurnar. Leggið sárin saman og pakkið þétt í matarplast og inn í ísskáp fram að eldun.

Þegar allt meðlæti er að verða klárt er panna snarphituð og smjör brætt á henni. Bringurnar fara á vel heita pönnuna og eru steiktar í um 2-3 mínútur á hvorri hlið. Pakkið stykkjunum saman í álpappír að steikingu lokinni og setjið í 100°C heitan ofn í 8-10 mínútur. Að því loknu skal taka þær úr ofninum og láta "taka" sig í aðrar 10 mínútur fyrir framreiðslu. Skáskerið í sneiðar.

Tillaga að meðlæti: Rjómalöguð sérrísveppasósa að hætti hússins, bakaðir kartöflubátar og maísbaunir.

Rjómalöguð sérrísveppasósa

Einn pakki Knorr i Koppen sveppasúpa
2 dl vatn
1,5 dl rjómi
1 dl hveiti/1 dl vatn (hveitijafningur)
Kjötkraftur eftir smekk, villibráðar eða nautakraftur
1 msk sérrí, t.d. Bristol Cream
2 tsk góð berjasulta
Timjan, mulið milli fingra
Pipar
Sósulitur

Hleypið upp suðu á vatninu og blandið sveppasúpunni út í. Því næst rjómanum, kjötkraftinum og sultunni. Hristið saman hveitijafning og hellið varlega út í meðan hrært er þar til sósan er orðin hæfilega þykk. Látið malla á hægum hita í 2-3 mínútur. Bætið við krafti og pipar eftir smekk og dekkjið með sósulit ef vill. Setjið slurk af sérríi út í og myljið lítilræði af timjani út í, smakkið til. Sjóðið áfram í 2 mínútur.

Svara