Fundargerð félagsfundar 15. feb.

Almennt um starfsemi skotfélagsins
User avatar
maggragg
Skytta
Póstar í umræðu: 1
Póstar:1284
Skráður:02 Jul 2010 07:59
Fullt nafn:Magnús Ragnarsson
Staðsetning:Hvolsvöllur
Hafa samband:
Fundargerð félagsfundar 15. feb.

Ólesinn póstur af maggragg » 23 Feb 2011 13:27

Fundargerð 15.02.2011

Mættir voru:

Guðmar Tómasson formaður
Magnús Ragnarsson ritar
Kristinn Valur Harðarson varamaður
Reynir Þorsteinsson
Jóhann Norðfjörð
Samúel Guðmundsson
Lárus Þorsteinsson
Páll Jóhannsson
Jón Ægir Sigmarsson
Jón Þorsteinsson
Jóhann Jensson
Kristinn Á Sigurlaugsson

Farið var yfir dagssrá fundarins og í framhaldi farið yfir það sem búið var að gera í félaginu

Kom fram að skotsvæðið væri komið á aðalskipulag, búið væri að gera leigusamning við Landgræðslu ríkisins um leigu á skotsvæðinu. Leyfi fyrir starfsemi skotfélags og skotsvæðið væru komin hjá yfirvöldum og jafnframt sveitafélaginu. Tryggingar væru komnar á svæðið og margt fleirra sem gert hafði verið.

Jóhann Norðfjörð hélt erindu um Skotíþróttasamband Íslands eða Stí fyrir hönd stjórnar.

Kom fram hjá Jóhanni að til að ganga í Stí þyrfti skotfélagið að ganga í Héraðssamband Skarphéðins og þar myndi það sjálfkrafa verða aðili að Stí og Íþróttasambandi Íslands. Lög félagsins þyrftu að uppfylla lagaramma ÍSÍ en þau gerðu það nú þegar í meginatriðum. Sagði Jóhann að það væri gjald sem rukkað yrði af hverjum félagsmanni, 194 kr. á félagsmann en á móti kæmu tekjur að Lóttó og reynsla hans hjá Skotfélagi Suðurlands sýndi að þær tekjur dekkuðu þetta gjald og væri að auki afgangur. Einu kvaðirnar sem settar yrðu á skotfélagið yrðu að þau þyrftu að skila inn aðalfundargerð og félagatali á hverju ári til stjórnar HSK og Stí.

Jóhann sagði það misskilning að félögin yrðu bundin af því að framfylgja ákveðnum reglum um hvað mætti stunda og hvað ekki á vegum skotfélagsins en það væri algjörlega í valdi skotfélagsins að ákveða það en þegar mót væru haldin yrði að fylgja reglum Stí en annars ekki. Jóhann sagði að það væri mun auðveldara að sækja um styrki ef skotfélagið væri íþróttafélag heldur en að það væri einhver einkaklúbbur. Það sem félagið gæti ekki gert ef það væri ekki aðili að Stí væri að halda landsmót eða önnur mót á vegum Stí ( Önnur félög gætu leigt aðstöðuna til að halda mót ) og félagsmenn gætu ekki keppt á þeim mótum fyrir hönd félagsins. Stí er með greinar ISSF ( áður UIT ) undir sínum verndarvæng, ásamt fleirri greinum.

Ný skotgrein sem er væntanleg, IPSC verður undir verndarvæng Stí og því þurfa þeir sem vilja keppa á mótum að vera aðilar að skotfélagi sem er í Stí. Þótt félagið væri ekki aðili að Stí gætu menn þó keppt í þessum greinum innan félagsins og haldið sín eigin mót og sínar eigin greinar en ef menn vilja taka þátt í skotíþróttaviðburðum verða menn að vera aðilar að Stí, hægt er þó að keppa sem gestaþáttakendur ef menn eru utan Stí en þá er ekki hægt að vinna til verðlauna. Niðurstaðan væri sú að kostnaður við að ganga í Stí væri lítill sem enginn, kvaðirnar litlar sem engar en möguleikarnir þeir að félagið og félagsmönnum stæði til boða að taka þátt í skotíþróttagreinum sem keppt væri í innanlands sem og erlendis.

Að lokinni kynningu Jóhanns var kaffihlé.

Að loknu hléi komu þeir Arne Sómundsson, Kristján Sturlaugsson og Fannar Bergsson fyrir hönd Skotvís og voru með fyrirlestur um starfssemi og hugsanlegt samstarfs skotveiðifélaganna.

Arne hélt góðan fyrirlestur þar sem hann fór í starfssemi Skotvís, það sem þeir eru að berjast við og hvað félagið hefði gert og hvað hefði hugsanlega mátt gera betur. Farið var yfir stöðuna í dag, fyrir hvað Skotvís væri að berjast og farið var inná landréttamál sem hefðu verið mikið í deiglunni. Einnig farið lauslega inná verkefnin í kringum þjóðgarðsmálið fræga.

Fór Arne yfir það að félagið væri með mikilvægt en þögult starf og að félagið hafi gert það að verkum að rjúpnabanninu var aflétt, vörugjöld voru tekin af skotvopnum og skotfærum og Skotvís væri kominn með fulltrúa í úthlutunarnefnd veiðikortasjóðs.

Nokkrir mjög áhugaverðir og sláandi punktar komu fram í fyrirlestrinum, m.a. að þær tekjur sem veiðikortastjóður skaffaði myndi nema allt að þriðjungi þess fjármagns sem færi í allar nátturufræðirannsóknir á Íslandi og gæti sjóðurinn rekið Ranís. Það væri líka merkilegt að Skotvís hefði ekki haft fulltrúa frá hjá sjóðnum fyrr.

Einnig sagði Arne að fjöldi félagsmanna í Skotvís væri mjög lítill miðað við fjölda veiðikorthafa og væri meginnþorri félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu. Skýringin á því gæti verið að hluta til vegna þess að félagsmenn í Skotreyn væru sjálfkrafa félagsmenn í Skotvís og líka sú að meira af veiðimönnum á höfuðborgarsvæðinu hefðu ekki svo greiðan aðgang að veiðilendum. Það sem kom mjög á óvart var það að á Suðurlandi væru aðeins 36 félagsmenn í Skotvís en þar eru 754 skráðir með veiðikort. Á höfuðborgarsvæðinu væru rúmlega 10% veiðikorthafa í Skotvís. Sagði Arne að fjöldinn væri mikilvægur fyrir slagkraft Skotvís og því fleirri félagsmenn sem væru í félagin því öflugra væri það á vettvangi hagsmunabaráttu fyrir veiðimenn.

Arne sagði frá því að miklar breytingar væri að vænta hjá Skotvís og að á næst aðalfundi yrði væntanlega kosin ný stjórn. Einnig væri áhersla lög á breytta starfsemi og með stofnun svokallaðs framkvæmdaráðs væri opnað á það að menn með áhuga á einhverjum málefnum gætu komið inn í Skotvís og unnið að þeim í þessu framkvæmdaráði. Væri þetta breyting frá því sem að stjórnin réði öllu og sá um að gera allt. Væri þegar vinna byrjuð á þessum nótum þar sem landréttanefnd væri að starfa í þessum anda. Vildu þeir með þessu virkja veiðimenn til að vinna í þágu félagsins og efla það enn frekar.

Arne ræddi svo um áherslubreytingar í samvinnu við skotveiðifélögin úti á landi þar sem hann taldi mikilvægt að Skotvís væri vel tengt inn í þessi félög. Hefði Skotreyn verið deild innan Skotvís lengi en hugsunin hjá þeim núna væri að gera samstarfssamninga við skotveiðifélögin. Það yrði einhverskonar samningur sem gerður yrði milli þessara félaga til að halda betur sjálfstæði þeirra. Uppi komu umræður hvort að þetta myndi samrýmast reglum ÍSÍ ef félagið yrði aðili að Stí og var talið að þetta ætti ekki að hafa áhrif á það en ætlaði stjórnin að kanna það mál með tilliti til þess að hægt væri að aðskilja bókhald. Í samstarfssamning fælist að hluti félagsgjaldi rynnu til Skotvís. Þetta væri allgjört samningsatriði hvernig þetta yrði útfært.

Svöruðu Arne, Kristján og Fannar svo spurningum að þessu loknu og urðu umræður um ýmis mál. Að því loknu var kaffihlé.

Að loknu kaffihléi fór undirritaður yfir það sem væri í gangi og það sem stæði til.

Var farið yfir það að deiliskipulagsvinna væri í gangi með teiknistofunni Steinsholti. Farið var yfir leyfi Heilbrigðiseftirlitsins en vænta má að nokkrar kröfur yrðu gerðar og þarf deiliskipulagið að liggja fyrir. Má gera ráð fyrir því að félagið þurfi að láta gera hljóðmælingar og væri verið að kanna hvernig hægt væri að útfæra það með sem minnstum tilkostnaði. Einnig þyrfti að gera grein fyrir grunnvatni, vatnsverndarsvæðum, frárennsli, öflun neysluvatns og staðsetningu fyrirhugaðra mannvirkja.

Farið var yfir samning sem væri í vinnslu við ábúendur á Minna-Hofi um leigu á 0,5 hekturum undir vegstæði en til stendur að leggja veg frá Rangárvallarvegi og að skotsvæðinu, allt að 1,2 km, þó á mjög auðveldu svæði til vegagerðar. Girða þyrfti um 100 metra kafla á landinu.

Farið var yfir það sem gera þyrfti í framhaldi. Fá þyrfti rafmagn á svæðið og nemur kostnaður við það eitt um 800.000 kr. Einnig þyrfti að finna hagstætt en gott félagshúsnæði, gámahús eða sambærilegt. Bora fyrir neyslvatni og koma upp góðri aðstöðu, leirdúfubrút, riffilbraut, skammbyssubraut og fyrirmyndaraðstöðu í alla staði.

Var farið yfir það hvað kröfum við mættum vænta að yrðu gerðar til svæðisins. Var það meðal annars að svæðið yrði girt af vegna öryggissjónarmiða, til að sporna við gangandi umferð á svæðið og eru fordæmi fyrir þessari ráðstöfum. Við þurfum að leggja fram landgræðsluáætlun. Ráðstafanir vegan hreinsunar á blýi og hættulegum málmum af svæðinu komi til þess, á þó aðeins við um riffilbraut þar sem blýhögl verða bönnuð á leirdúfuvöllum. Frárennsli eins og lokuð rotþró. Ráðstafanir er varða hávaðamengun. Öryggisreglu og öryggisráðstafanir við riffilbraut.

Farið var yfir það hvaða íþróttagreinar ætti að vera hægt að stunda á svæðinu. Markmiðið væri að það væri hægt að stunda nánast allar utanhússgreinar. Gert verður ráð fyrir Skeet og trap völlum ,sporting velli. Riffilbraut sem hentar bæði íþróttaskotfimi og veiðimönnum með færunum 100, 150, 200, 300, 400 og 500 metra færum. Silhuette völlur fyrir 22LR, 50 og 25 metra fyrir skammbyssu og 22LR og svo sérstakur IPSC völlur sem hentaði fyrir þá grein og aðrar sem myndu henta á því svæði.

Þeir sem ættu að geta stundað æfingar yrðu þeir sem eru mill 15-20 ára ef félagið sækir um sérstakt leyfi, hægt yrði að stunda flesta greinar ISSF, Benchrest, Silhouette, sporting og margt fleirra og voru félagsmenn beðnir um að koma hugmyndum á framfæri. Einnig er áhersla lögð á að svæðið henti veiðimönnum og þeim sem eru að endurhlaða skot.

Farið var yfir fjáröflun félagsins og kom fram að það er fyrst og fremst í gegnum félagsgjöld. Farið var yfir þá möguleika sem ferðaþjónusta gæti nýst til fjáröflunar, kennsla fyrir umhverfsisstofnun, leggja áherslu á að hafa svæðið eftirsóknarvert. Svæðið í alfaraleið og það sterkur kostur og svo styrkir sem félagið gæti fengið.

Voru allir hvattir til að skrá sig en félagsgjöldin eru 10.000 kr. á ári og 5.000 inntökugjald er fyrir nýja félaga. Stefnt væri að því að gefa út greiðsluseðla.

Í lok fundarins voru félagsmenn og gestir hvattir til að mæta á aðalfund félagsins sem yrði haldin þann 24. mars næstkomandi.

Fundi slitið 23:30

Magnús Ragnarsson ritari

Meðfylgjandi eru glærur sem voru á fundinum
Viðhengi

[The extension ppt has been deactivated and can no longer be displayed.]

Magnús Ragnarsson
Hvolsvelli
868 0546

"Maður er meistari orðanna sem maður segir ekki en þræll þeirra sem maður segir"

Svara