Siðareglur veiðimanna

Almennt um veiði eða veiðar á bráð sem ekki eru í undirflokkunum
User avatar
maggragg
Skytta
Póstar í umræðu: 1
Póstar:1284
Skráður:02 Jul 2010 07:59
Fullt nafn:Magnús Ragnarsson
Staðsetning:Hvolsvöllur
Hafa samband:
Siðareglur veiðimanna

Ólesinn póstur af maggragg » 27 Ágú 2011 12:16

Siðareglur Skotveiðifélags Íslands

Skotveiðimaður stundar veiði á villibráð sér til ánægju og heilsubótar. Hann virðir landslög og vegna byssunnar ber hann sérstaka ábyrgð gagnvart samborgurum sínum og lífríki landsins í heild. Þess vegna temur hann sér eftirfarandi siðareglur.

Skotveiðimaður:
1. EYKUR STÖÐUGT ÞEKKINGU SÍNA Á SKOTVEIÐUM. HÉR ER MEÐAL ANNARS ÁTT VIÐ:

lög og reglur um veiðar.
bráðina og lifnaðarhætti hennar.
útlit og útbreiðslu friðaðra fugla.
verndun veiðidýrastofna og skynsamlega nýtingu þeirra.
eiginleika veiðivopna og skotfæra og annmarka þeirra.



2. ÆFIR SKOTFIMI

Skotveiðimaður þarfnast stöðugrar æfingar hvort heldur hann ætlar að skjóta kyrrstæða bráð eða fugl á flugi.
- Notaðu hvert tækifæri til markæfinga bæði á kyrrstæð mörk og leirdúfum.

- Leggðu sérstaka áherslu á að þjálfa fjarlægðaskyn þitt.




3. GÆTIR FYLLSTA ÖRYGGIS Í MEÐFERÐ SKOTVOPNA

Ávallt skal meðhöndla skotvopn sem hlaðið væri.
- Beindu aldrei hlaupinu að neinum.

- Notaðu aldrei byssuna sem barefli eða göngustaf.

- Leggðu aldrei byssuna þannig að hún geti dottið.

- Geymdu byssu og skotfæri tryggilega.

Byssu skal ekki hlaða fyrr en veiðimaður er reiðubúinn að skjóta. taktu skotin úr byssunni þegar:
- þú ferð inn í bíl eða annað faratæki

- þú færir þig að ráði um set

- þú átt leið um hálku

- þú ferð yfir girðingar eða torleiði

- þú leggur byssuna frá þér

Gengið skal úr skugga um að ekkert beri á þegar miðað er og skotið á bráðina.
-Gáðu að veiðifélögunum

-Gættu þess að fólk, búpeningur og faratæki, hús eða önnur mannvirki séu ekki í hættu fyrir skotinu

-Gættu þess að skotið getur hrokkið af grjóti, frosnum sverði eða vatnsfleti

-Sé þess kostur hagaðu svo til að bráðin beri í holt eða hæð, sem tekur geti við skotinu ef það stöðvast ekki í bráðinni

Veiðimaður losar ekki öryggi af byssu og skýtur fyrr en hann hefur fullvissað sig um að skotmarkið sé það sem hann ætlar að skjóta á.
Veiðimaður skal ekki snerta byssu ef hann er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa.



4. BEITIR EKKI VEIÐIAÐFERÐUM SEM VEITIR BRÁÐINNI ÓÞARFA KVÖLUM

Skot á að deyða bráðina á augabragði. Til þess að komast hjá því að særa dýr skaltu gæta þess að:
- skjóta ekki af of löngu færi

- ekkert beri milli þín og bráðarinnar

- skjóta ekki nema yfirgnæfandi líkur séu að því að hitta vel

Sært veiðidýr skal aflífa hið skjótasta. Finnist dýrir ekki á skotastað skal einskis látið ófreistað að leita það uppi.


5. TELUR FJÖLDA VEIDDRA DÝRA EKKI MÆLIKVARÐA Á GÓÐAN VEIÐIMANN, EÐA VEL HEPPNAÐAN VEIÐIDAG

Góður veiðimaður stærir sig ekki af feng sínum og keppir ekki við aðra um fjölda veiddra dýra.
Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.



6. FER VEL MEÐ VEIÐIBRÁÐ

Farðu vel með feng þinn og spilltu honum ekki.
Vandaðu aðgerð og tilreiðslu bráðar.



7. FÆRIR VEIÐIDAGBÆKUR AF KOSTGÆFNI OG TEKUR VIRKAN ÞÁTT Í VERNDUN VEIÐIDÝRA

Færa ber veiðibækur og halda þeim til haga. Veiðiskýrslur eru þýðingarmikil gögn við rannsóknir á veiðidýrum.
Veiðimaður ætti að leggja sitt af mörkum í baráttu gegn brotum á veiðilöggjöfinni.



8. ER GÓÐUR VEIÐIFÉLAGI

Góður veiðifélagi skýtur ekki þegar félagi hans á von á betra færi.
Góður veiðimaður hjálpar félaga sínum að sækja feng og leita uppi særða bráð.



9. SÝNIR ÖÐRUM VEIÐIMÖNNUM HÁTTVÍSI

Er fús að veita upplýsingar um veiðarnar, sem gætu orðið þeim að gagni.
Hefur samráð við þá um nýtingu veiðisvæðisins.



10. VIRÐIR RÉTT LANDEIGANDA OG STENDUR VÖRÐ UM EIGIN RÉTT

Veiðimaður leita heimildar landeiganda til veiða og ráðfærir sig við hann.
Veiðimaður fer með gát um ræktuð lönd, skemmir ekki girðingar og lokar hliðum á eftir sér.



11. SÝNIR ALMENNINGI TILLITSSEMI

Hafa ber í huga að margur er lítt hrifinn af skotveiðum og fellur illa að sjá dauð dýr.
- Veiddu því ekki nærri fjölförnum vegum eða í grennd við mannabústaði.

- Vertu vingjarnlegur við þá sem þú hittir í veiðiferðum.

- Forðast að flytja feng þannig að til ama geti orðið fyrir aðra.




12. GENGUR VEL UM LANDIÐ

Góður veiðimaður gerir greinarmun á bráð og öðrum dýrum þótt skjóta megi. Bráð er veidd, vargi er eytt, en önnur dýr látin í friði.
Veiðimaður spillir hvergi landi. Þess gætir hann við akstur, í tjaldstað og við meðferð elds.
Góður veiðimaður skilur ekki annað eftir sig en sporin sín.
Magnús Ragnarsson
Hvolsvelli
868 0546

"Maður er meistari orðanna sem maður segir ekki en þræll þeirra sem maður segir"

Svara