Veiðisaga frá svæði 7 2016

Allt sem viðkemur hreindýrum
Haglari
Póstar í umræðu: 1
Póstar:125
Skráður:03 Oct 2013 20:27
Fullt nafn:Óskar Andri Víðisson
Hafa samband:
Veiðisaga frá svæði 7 2016

Ólesinn póstur af Haglari » 06 Ágú 2016 10:19

Sæl verið þið. Ég póstaði samskonar sögu í fyrra. Hérna kemur veiðisagan fyrir 2016, margir hafa vafalaust séð þetta á facebook nú þegar :)

Ég og systir mín vorum svo heppin að fá úthlutað sitthvorum tarfinum á svæði 7 í fyrstu úthlutun. Þetta er í fyrsta skiptið sem systir mín fær úthlutað hreindýri og var það sérstaklega ánægjulegt. Ég og Andri mágur minn felldum sitthvorn tarfinn í Búlandsdal í ævintýralegri veiðiferð á svæði 7 í fyrra. Við vorum í fyrstu svona á báðum áttum með að fara annað árið í röð í dýra veiðiferð en eftir hvatningu frá þeim nánustu sem hafa notið góðs af veiðinni frá síðasta ári rennum við í hlað hjá Sigurði Aðalsteinssyni veiðimeistara laugardagsmorgunin 23 júli. Hingað til hefur tekist að fella hreindýr á fyrsta degi í öllum þeim veiðiferðum sem ég hef farið í. Nú fengum við hinsvegar að kenna doldið hressilega á því og tók það okkur 5 daga að ná okkar dýrum. Ég ætlaði í fyrstu að skrifa veiðisöguna alla dag eftir dag en sá fljótt að það yrði efni í heila bók. Þótt það hafi gengið á ýmsu alla dagana sem hefði verið gaman að segja frá en ég held að það sé best að strauja beint í tvo síðustu dagana. Við fórum fjögur af stað frá Reykjavík. Óskar Andri (undirritaður) Kristín Alísa systir mín, Andri Freyr maður systir minnar og Þorsteinn faðir Andra. Þorsteinn þurfti að fara heim á mánudagskvöldið sem var þriðji veiðilausi dagurinn.

Þriðjudagurinn byrjar ekki vel, það er rigning og lágskýjað. Hinsvegar hafði norðanáttin að mestu hreinsað í burtu þokuna sem hafði gert okkur lífið mjög leitt dagana á undan. Fljótlega berast okkur fréttir af því að hjörð hafi fundist í Krossdal í Berufirði. Við brunum þangað og endum í eltingarleik við hjörðina sem leiðir okkur í háfaðaroki upp úr í Krossdal og í gegnum skarð sem kemur á milli Grunnadals og Skammadals. Þar hverfur hjörðin sporlaust, það er langt í bílana og orðið of áliðið til að halda áfram. Miðvikudagsmorgun, þetta er fimmti dagur á veiðum. Við erum staðráðin í því að við verðum að finna dýr þennan dag. Siggi var bókaður með annan veiðimann daginn eftir á öðru svæði sem myndi setja allt úr skorðum. Eiður Gísli, leiðsögumaður frá Lindarbrekkur var með einn veiðimann á svæði 7 að leyta.

Það var ennþá bjart yfir strandafjöllunum en engin dýr finnast. Það var komið frammyfir hádegi þegar við komum að Fagradal sem gengur upp úr Breiðdal. Þarna skarast svæði 6 og 7. Fagridalur er eignarland en þar í gegn liggur ýtuslóði eftir að ljósleiðari var plægður í jörðina. Slóðin liggur innst í dalin og síðan upp úr honum. Þar myndi okkur gefast góð sýn yfir staði sem ekki sáust frá veginum. Eftir að hafa fengið leyfi hjá landeiganda er ákveðið að elta slóðina upp úr dalnum. Við þekktum ekki slóðina en Eiður Gísli sem var aðeins utar í Breiðdalnum hafði farið þarna áður og sagði að þetta væri ágætis slóði og við ættum endilega að kíkja þangað uppeftir. Það fóru nú aðeins að renna á okkur tvær grímur þegar að við komum innar í dalinn. Slóðin var alls ekkert ágætur, hann var mjög torfær, ógreinilegur og oft sundurgrafin eftir lækinn sem rennur eftir botni dalsins.

Það hlakkar í Eið Gísla þegar að hann sér að við erum komin innst í dalin og byrjuð að keyra upp úr honum. Honum fannst það mátulegur hrekkur að senda okkur þarna inneftir, vitandi hvernig slóðin væri því að hann nennti því enganvegin sjálfur, heldur beið yst í dalnum. Hiluxinn fékk heldur betur að vinna fyrir sínu og lét Eiður Gísli hvað eftir annað brandara flakka í talstöðina á okkar kostnað um ferðahraða, intercooler og túrbínur. Þegar við komum upp úr dalnum förum við okkur hægt því að við gætum allt eins keyrt framm á hjörð á þessum slóðum. Við stoppum ofarlega til að kíkja yfir fjöllin og það er réttsvo búið að stoppa bílinn þegar að Siggi kallar „hreindýr! fullt af þeim“. Þarna var hjörðin sem við tíndum í eltingarleiknum deginum áður, langt úti á Fagradalsbrúnum.

Nú hafði Eiður Gísli enga afsökun lengur til að hanga þarna niðurfrá. Hann varð að drífa sig uppeftir með sinn veiðimann og gátum við launað honum til baka eitthvað af intercooler bröndurunum á meðan við biðum eftir honum. Loksins sameinumst við og gerum okkur klár að ganga af stað. Fæturnir voru sárir eftir eltingarleikin upp úr Krossdalnum daginn áður, en maður beit á jaxlinn og reyndi að rífa sig úr spori eins og maður gat. Þegar við komum upp á hæð þar sem við sjáum yfir hjörðin eru dýrin öll lögst niður og mjög róleg. Það er nokkuð hvasst og við þurfum að skríða nær dýrunum til að komast í öruggt færi. Til að við séum ekki of mörg er ákveðið að Eiður Gísli fari með okkur veiðimennina á meðan Siggi og Andri fylgjast með úr öruggri fjarlægð.

Þegar að við erum að nálgast álitlegan skotstað förum við að virða fyrir okkur dýrin, velja tarfa og meta aðstæður. Hjörðin er mjög dreifð þannig að það tekur smá stund að velja álitlega tarfa sem hægt er að skjóta á sama tíma. Myndarlegasti tarfurinn í hjörðinni lá talsvert langt í burtu og snéri að okkur sem að gekk ekki. Fyrir framan okkur finnum við Alísa tvo álitlega tarfa. Þeir eru nú ekki mjög stórir en það virðist ekki vera mikið um mjög stóra tarfa á svæði 7 og vorum við búin að sætta okkur við +70kg og töldum við þessa tvo vera líklega. Við liggjum á brún sem hallar mjög aflíðandi undan okkur, tarfarnir lágu þar undir og var talsverð hætt á að kúlurnar myndi fara í barðið eða jörðina sem gæti þítt annaðhvort mjög slæmt skot eða bara að hitta alls ekki. Við þurfum því að skríða á maganum framm á brúnina. Við erum komin ansi nálægt og talsverð hætta á að dýrin sjái okkur. Vindarnir voru samt hagstæðir og tekst okkur að komast í mjög góða skotstöðu. Tarfarnir sem við höfðum valið voru nú 202m frá okkur.

Nú eru rifflarnir hlaðnir og skot komin í hlaupin. Það var búið að ákveða að Eiður Gísli myndi telja niður og við myndum skjóta á sama tíma. Ég kem krossinum c.a. fyrir framan afturlöppina og aðeins upp fyrir mitt dýr. Allir eru tilbúnir og það er komið að þessu. Eiður telur niður 3,2,1 BÚMMM!! Skotin voru öll samtaka, ég hleð riffilinn strax aftur og fylgist með hvað gerist. Eins og ég bjóst við stóð tarfurinn upp, hóstaði blóði og hneig strax niður aftur. Það sama gerðist hjá Alísu. Þetta var ótrúleg tilfinning. Eftir 5 daga sleitulausan eltingarleik þar sem hvert tækifærið á fætur öðru rann okkur úr greipum, var þetta loksins komið! Tarfarnir voru nú eitthvað aðeins minni og ekki eins hornprúðir og þeir sem við Andri felldum í fyrra. En það gerði ekkert til, veiðimennirnir voru sáttir og það er það sem skiptir máli.

Þegar búið var að taka myndir og taka innan úr dýrunum kemur sexhjól sem Eiður var með í för til að sækja tarfana. Það var ánægjulegt að rölta til baka vitandi hvað tæki við næsta dag, jafnvel þótt þetta hafi verið erfitt var fyrsta tilfinnigin þegar að ég kom að mínu dýri hvað mig langaði til að gera þetta aftur. Maður er auðvitað ekki alveg með öllu mjalla en þetta er eitthvað sem vafalaust flestir veiðimann kannast við. Dýrin fóru í Lindarbrekku til Eiðs Gísla í fláningu og kælingu. Þar er þvílík fyrirmyndaraðstaða og þekking til staðar. Hérna held ég að sé gott að enda söguna, við sóttum skrokkana morgunin eftir í Lindarbrekku og keyrðum í bæinn. Næstu tveir dagar fóru í að ganga frá eftir ferðina, úrbeina og pakka kjötinu. Við verðum Sigga veiðimeistara og Eið Gísla æfinlega þakklátt fyrir að aðstoða okkur í gegnum þetta ævintýri.

Mynd
Dagur 1 á veiðum. Við skálan Víðigerði innst í Fossárdal.

Mynd
Dagur 1 á veiðum. Fossárdalsafrétt, sumstaðar var smá brölt að komast yfir, slóðirnar blautar og seinfarnar.

Mynd
Dagur 1 á veiðum. Hópur af veiðimönnum. Þarna eru 5 tarfaleyfi á sv. 7 að leyta. Þokan að gera mönnum lífið leitt en það var búið að finna einn tarf sem hluti af hópnum ætlaði að sækja.

Mynd
Dagur 2 á veiðum. Rigning og þoka. Lítið að gera annað en að fá sér bíltúr. Þessi fallegi foss er í Berufjarðará. Seint um daginn fundum við hjörð langt, langt í burtu. Það klaufalega var að leiðsögumaður var ekki með og orðið of áliði til að kalla hann til.

Mynd
Dagur 3 á veiðum. Jón Ágúst veiðimaður sem var búinn að vera með Sigga frá því á föstudag tókst að fella eina tarfinn sem fannst þennan dag. Það var auðvita mjög ánægjulegt þar sem þetta var síðasti dagurinn sem hann hafði til veiða áður en þurfti að snúa heim. Tarfurinn vó 85kg og var felldur með Tikka T3 Varmint í því ágæta caliber 6.5x55 SE

Mynd
Dagur 3 á veiðum. Við aðstoðuðum Sigga og Jón Ágúst við að koma tarfinum hans til byggða. Það er mjög ánægjulegt að geta aðstoðað Jón við að klára sína veiði. Það lá mjög torfær slóð skammt frá þeim stað sem targurinn var felldur og var hægt að fara á Einfara að sækja hann. Um tíma vorum við 6 í bílnum, en það er ekki í fyrsta skiptið í þessum bíl :) Dalurinn í baksýn er Hamarsdalur

Mynd
Dagur 3 á veiðum. Sigurður Aðalsteinsson Veiðimeistari horfir yfir Hamarsdal í von um að finna fleiri hreindýr.

Mynd
Dagur 4 á veiðum. Byrjaði rólega, lágskýjað og rigning. En skyndilega vorum við komin í Krossdal í Berufirði að príla upp brattar hlíðar í eltingarleik við hreindýr.

Mynd
Horft þvert yfir Krossdal. Það er ennþá skýjað en sólin reynir hvað hún getur að tegja sig niður í dalinn.

Mynd
Dagur 4 á veiðum Ennþá erum við að príla upp Krossdal. Hérna erum við að elta för eftir hjörðina sem liggur upp Grunnadalsskarð í 700m hæð. Þegar komið er yfir skarðið stendur maður á milli Grunnudals og Skammadals

Mynd
Dagur 4 á veiðum. Horft niður Krossdal og í átt til Djúpavogs sem er í fjarska á miðri mynd. Þaðan sá Eiður Gísli hreindýrin fyrr um daginn með fjarsjá. Það eru 9,6km í beinni loftlínu. Það er ekki hægt annað en að hrósa manninum fyrir!

Mynd
Dagur 4 á veiðum Kristín Alísa horfir yfir Krossdal ofan úr Grunnadalsskarði

Mynd
Dagur 4 á veiðum. Á leiðinni niður hittum við Eið Gísla. Honum hafði tekist ásamt öðrum leiðsögumanni og samtals 4 veiðimönnum að fella 4 tarfa úr hjörðinni rétt áður en að við komum.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Innst í Fagradal og komin upp úr dalnum. Siggi að virða fyrir sér hjörðina sem var c.a. 2,5km í burtu.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Kristín Alísa með nýveiddan 70kg tarf. Tarfurinn var felldur með rifflinum hans Andra sem er Blaser R8 Professional Scandinavian í cal 6XC

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Undirritaður með 74kg tarf. Felldur með gamla góða Sako 75 Stainless Hunter í cal 6.5x55. Hleðsla var Lapua Scenar 136 L með 48,3 grain af Norma MRP.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Kristín Alísa fær að prófa nokkur handtök við að gera að dýrinu með aðstoð Eið Gísla.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Siggi er auðvita mjög vanur. Ef maður ætlar að fylgjast með honum taka innan úr hreindýri er eins gott að blikka ekki augunum því þá er hann búinn að því.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Leiðsögumenn og veiðimenn. Siggi, Eiður Gísli, Kristín Alísa, Óskar Andri og Andri Freyr Þarna held ég að allir séu mjöööög sáttir með dagsverkið enda tók þetta 5 daga!

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Veiðimaðurinn sem var með Eið Gísla. Hreindýrin komin á sexhjólið og að bílunum

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Enn ein mynd úr botni Fagradals.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Hluti af leiðinni niður úr Fagradal sem var mjög torfær.

Mynd
Dagur 5 á veiðum. Tarfarnir komnir í fláningu hjá Lindarbrekku. Andri Freyr fylgist mjög áhugasamur með.

Takk fyrir og þangað til næst!
Óskar Andri
Síðast breytt af Haglari þann 07 Ágú 2016 19:14, breytt í 1 skipti samtals.

karlguðna
Póstar í umræðu: 1
Póstar:469
Skráður:13 Feb 2013 13:46
Fullt nafn:guðmundur karl guðnason

Re: Veiðisaga frá svæði 7 2016

Ólesinn póstur af karlguðna » 06 Ágú 2016 21:56

tær snylld,,, :D :D takk fyrir þetta ,,, næstum eins og maður hefði verið með í för :P flott saga og verulega flottar myndir , takk aftur... :mrgreen:
Elskun náungann.
BKV. Karl Guðna.

Svara