Verkleg skotpróf hjá Skyttum

Allt sem viðkemur hreindýrum
User avatar
maggragg
Skytta
Póstar í umræðu: 1
Póstar:1284
Skráður:02 Jul 2010 07:59
Fullt nafn:Magnús Ragnarsson
Staðsetning:Hvolsvöllur
Hafa samband:
Verkleg skotpróf hjá Skyttum

Ólesinn póstur af maggragg » 05 Jun 2012 10:01

Verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn eru hafin

Samkvæmt breytingu á lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum og reglugerð 424/2012 er veiðimönnum hreindýra og leiðsögumönnum þeirra skylt að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða. Taka þarf prófið fyrir 1. júlí ár hvert.

Boðið er uppá æfingar og verklegt skotpróf á skotsvæði félagsins á Geitasandi, milli Hellu og Hvolsvallar.

Hægt er að hafa samband við prófdómara og mæla sér mót við þá. Annaðhvort með því að senda tölvupóst á skotfelag@skyttur.is eða hringja í eftirfarandi prófdómara:

Jón Þorsteinsson S: 892-6790
Guðmar Jón Tómasson S: 691-1100
Kristinn Valur Harðarson S: 697-3479
Magnús Ragnarsson S: 868-0546
________

Prófið kostar 4.500 kr. samkvæmt verðskrá UST

Helstu verklagsreglur skotprófsins

Helstu atriði sem veiðimaður þarf að vita áður en haldið er í prófið
Hér á eftir er umfjöllun um skotprófið sem varðar það helsta sem próftaki þarf að hafa í huga þegar haldið er í próf.

Áður en haldið er í prófið þarftu að gera eftirfarandi:
  • Hafðu samband við okkur og finndu tíma með prófdómara. Við getum boðið uppá sérstaka æfingatíma fyrir prófið. Hafðu samband og kynntu þér fyrirkomulagið á hjá okkur. Mjög ráðlegt er að vera búinn að æfa sig áður en haldið er í prófið og hægt er að nota til þess æfingaskífuna sem hægt er að prenta út.
  • Greiða þarf skotprófsgjaldið til okkar áður en prófið er tekið. Gjaldið er kr. 4.500,- Greiða skal gjaldið inná reikning nr. 308-26-004204 kt. 420409-1330 og senda kvittun á skotfelag@skyttur.is eða koma með útprentaða kvittun fyrir greiðslunni.
  • Kannaðu hvort skotvopnaleyfið sé í gildi. Prófdómari kannar hvort riffillinn og raðnúmer hans sé tilgreint í skotvopnaleyfinu. Ef um lánsvopn er að ræða þarf að framvísa lánsheimild sem er í gildi og hafa í huga að einungis má halda til veiða með þeim riffli. Reglur um lánsheimildir er að finna í 36. gr. reglugerðar 787/1998.
  • ATH að nota skal riffla með hlaupvídd 6 mm eða meira. Kúluþyngd skal ekki vera minni en 6,5 g (100 grains) og slagkraftur ekki minni en 180 kgm (1300 pundfet) á 200 metra færi.
Áður en prófið er tekið á staðnum þarftu að:
  • Framvísa persónuskilríkjum (vegabréf eða ökuskírteini) og kvittun fyrir greiðslu prófgjalds.
  • Sýna prófdómara riffilinn ásamt skotvopnaskírteini. Einnig þarf að sýna skotfærin sem ætlunin er að nota. Ef ætlunin er að nota hjálpartæki (bakpoka, ól, staf eða tvífót) þarf að sýna prófdómaranum hvað í því felst. Riffillinn og skotfærin þurfa að uppfylla skilyrði til hreindýraveiða hvað varðar kúlugerð og slagkraft og þú mátt eingöngu mæta í prófið með þann riffil sem þú hyggst fara með á hreindýraveiðar.
Um sjálft skotprófið
Prófdómarinn fer yfir helstu atriði varðandi framkvæmdina á prófinu við upphaf prófsins. Hafðu í huga að prófið hefur tvennan tilgang. Annar er sá að kanna hvort þú búir yfir þeirri hittni sem krafist er og hinn að kanna hvort þú kunnir að meðhöndla skotvopn á ábyrgan hátt. Leyfilegt er að nota öll þau hjálpartæki sem þykir eðlilegt að hafa meðferðis á veiðar s.s. bakpoka, veiðistól, skotstaf til stuðnings, ól sem fest er í handlegg eða tvífót. Áður en prófið hefst sýnirðu prófdómaranum þau hjálpartæki sem þú hyggst nota við prófið og hann hefur síðasta orðið um það hvort heimilt er að nota það sem þú sýnir honum.

Þú mátt skjóta úr þeirri skotstellingu sem þú vilt en mátt ekki leggja riffilinn við fast undirlag. Afturskeftið má einungis snerta skyttuna, ekki jörðina eða annað fast undirlag. Skotstaðurinn er jörðin sjálf sem getur t.d. verið gras, möl eða annað undirlag og heimilt er að liggja á mottu ef þurfa þykir. Ekki er skotið sitjandi frá borði og þú átt að nota heyrnahlífar eða tappa. Ekki má nota sérstakan sjónauka til þess að skoða ákomu skota eftir að próf hefst.

Skotið er á 100 m færi og þú átt að skjóta fimm skotum á innan við fimm mínútum. Öll skotin eiga að snerta eða hafna innan í hrings á skotskífunni sem er 14 sm að þvermáli. Prófið hefst á því að prófdómarinn segir þér frá helstu reglum sem gilda um framkvæmd prófsins og að hans ábendingu kemurðu þér fyrir á skotstaðnum og yfirgefur hann ekki nema hafa heimild frá prófdómaranum til þess. Prófdómarinn gefur þér merki þegar tímatakan hefst og þá fyrst máttu setja skot í skotgeyminn á rifflinum. Ef um lausann skotgeymi er að ræða máttu ekki setja skot í hann fyrr en tímatakan hefst. Hlaðinn skotgeymir telst hlaðið skotvopn.

Ef eitthvað óvænt gerist eftir að tímataka hefst áttu möguleika á að leysa úr því ef það er innan tímamarkana. Ef það misferst að hlaða skotgeyminn rétt þarftu að leysa úr því innan tímamarkana. Ef skot hleypur ekki af þegar tekið er í gikkinn áttu undantekningalaust að gefa prófdómaranum merki og mátt ekki opna lásinn fyrr en 20 sek eru liðnar. Að þeim liðnum máttu opna lásinn og kanna orsökina. Próftíminn er ekki lengdur ef þú lendir í vandræðum með riffilinn. Tímatöku er hætt þegar þú ert búinn að skjóta fimmta skotinu. Ef þú ert búinn að stunda skotæfingar með rifflinum ætti ekkert óvænt að koma upp í prófinu.

Hafðu í huga að prófinu er ekki lokið fyrr en þú ásamt prófdómaranum eruð búnir að sækja skotskífuna og ganga til baka yfir próflínuna. Þá fyrst mun prófdómarinn gefa þér til kynna að prófinu sé lokið og hvort þú hafir staðist eða ekki. Þú þarft ávallt að hafa í huga að prófið snýst bæði um hittni og öryggisreglur.

Öryggisreglur skotprófsins
Hægt er að falla á skotprófinu sé ekki farið nákvæmlega eftir öryggisreglum. Hluti af því er að ganga til og frá skotstað með óhlaðið skotvopn og þannig að lásinn sé opinn og/eða bolti tekinn úr og/eða ef um lamalás er að ræða á hann að vera opinn.
  • Ef um boltalás er að ræða tekurðu boltann úr rifflinum strax og þú byrjar að koma þér fyrir og setur hann ekki í fyrr en þú ert búinn að horfa í gegnum hlaupið og finna skotskífuna ef þú notar sjónauka.
  • Ef þú skiptir um skotstellingu eftir að próf hefst þarf lásinn að vera opinn.
  • Þegar þú ert búinn að skjóta áttu að kanna hvort skotgeymirinn og skothúsið séu tóm.
  • Þegar gengið er frá skotstaðnum á lásinn að vera opinn og/eða bolti tekinn úr og/eða ef um lamalás er að ræða á hann að vera opinn.
  • Riffilinn á ávallt að meðhöndla þannig að hlaupinu er aldrei beint í láréttri stefnu nema þegar því er beint að skotskífunum. Ef gengið er með riffilinn í láréttri stöðu telst prófið fallið.
  • Þú átt ávallt að meðhöndla skotvopnið á ábyrgan hátt og umgangast það eins og það væri hlaðið.
  • Meðhöndlunin á ávallt að vera þannig að prófdómarinn sé ekki í vafa um hvað þú ert að gera. Ef öryggisreglurnar eru ekki virtar telst prófið fallið óháð því hversu vel skotfimin sjálf gekk.
Þér er ekki heimilt að taka skotskífuna með þér að loknu prófi þar sem prófdómarinn heldur henni, en velkomið er að taka ljósmynd af skífunni til minningar um niðurstöðuna.

Ef svo fer að þú nærð ekki prófinu hefurðu möguleika á tveimur tilraunum til viðbótar en þarft að greiða prófgjald fyrir hvert tekið próf. Heimilt er að endurtaka prófið samdægurs ef þess er óskað en hafa ber í huga að ef til vill er ráðlegt að æfa sig betur og kynnast rifflinum vel áður en reynt er aftur við prófið, allt eftir því hvað þú treystir þér til að gera. Æfingin skapar meistarann.

Gangi þér vel.

http://ust.is/einstaklingar/veidi/hrein ... veidimenn/

Skotfélagið Skyttur
Viðhengi

[The extension pdf has been deactivated and can no longer be displayed.]


Læst